Hernaðurinn gegn landinu Þjórsárver hjarta landsins, Guðmundur Páll Ólafsson, Mál og menning, 2007, 288 bls.

Guðmundur Páll Ólafsson hefur tekið saman merkilegt rit um Þjórsárver og sögu virkjanaáforma sem ógna bæði tilvist þeirra og vistfræðilegu hlutverki. Við fyrstu sýn er ritið raunar ekki árennilegt, Guðmundur kýs að blanda öllu í einn pott: Hann fjallar um hálendi og öræfi almennt, hann upplýsir lesandann um jarðsögu og náttúrufar Þjórsárvera og nágrennis, svo rekur hann sögu umræðna um virkjanir í Þjórsá og deilur um þær og loks veltir hann fyrir sér merkingu og inntaki umhverfisverndar. Hann leggur sig ekki fram, að því er virðist, um að setja fram skýran eða einfaldan texta, útskýringar hans eru ekki alltaf ljósar og oft með vangaveltubrag. Hann birtir langar tilvitnanir í ræður og greinar verkfræðinga og stjórnmálamanna til að varpa ljósi á viðhorf og umræðu og ætlast iðulega til þess að lesandinn dragi sömu ályktanir og hann gerir sjálfur án þess að þær séu augljósar. Þetta gerir að verkum að bókin er ekki auðveld aflestrar vilji maður gera sér glögga mynd af efninu. En erfiðið er þess virði, því að í lokin tekst Guðmundi á sinn hátt að gera lesandanum ljóst á hvílíkum villigötum umræðan um þessi mál hefur iðulega verið. Og þrátt fyrir ofurlítið vandræðalegan skilning á hugtakinu nytjastefna eru lokakaflarnir sterk og einlæg röksemdafærsla fyrir mikilvægi þess að hugsa á annan hátt um verndun og varðveislu náttúrunnar en menn hafa lengst af gert.
Þegar Þjórsárver eru annars vegar ætti raunar ekki að þurfa langar eða flóknar röksemdafærslur til að eyða öllu tali um virkjanir sem leitt geta til þess að þau fari undir vatn. Þjórsárver eru eins og Guðmundur bendir á oftar en einu sinni í bókinni, einstök frá vistfræðilegu sjónarmiði og gegna viðkvæmu hlutverki í náttúrunni sem afar ólíklegt er að hægt sé að bæta upp. Það er í raun óskiljanlegt að jafnvel þó að þessi vitneskja hafi legið fyrir um langt skeið, skuli stjórnvöld samt þráast við og að áætlanir um virkjanir á þessu svæði haldi áfram. Það má segja að markmið Guðmundar með bókinni, eins og það blasir við lesandanum, sé að legga drög að réttu verðmætamati, það er, draga fram allt það sem í húfi er og stríðir gegn hinni einföldu hugsun hagfræðinganna um verð á kílówattstund.
Bókina prýða margar myndir og kort og það er að mörgu leyti skemmtilegra að blaða í henni og fletta upp en að lesa hana frá upphafi til enda. Það er vafalaust misjafnt hvað fangar athygli lesandans öðru fremur í ritinu. Ég verða að viðurkenna að mest um verð fannst mér samantekt Guðmundar á umræðum um virkjanir og nauðsyn þeirra um miðbik bókarinnar. Þessi samantekt sýnir afskaplega vel að deilur dagsins í dag um virkjanir eru ekki nýjar af nálinni og að röksemdir sjöunda áratugarins eru enn í umræðunni á fyrsta áratugi nýrrar aldar. Þó hefði mátt ætla að á þeirri tæpu hálfu öld sem liðin er, hefðu viðhorf um margt breyst. Sjöundi áratugurinn er tímabil hinna glæstu tæknilegu, verkfræðilegu lausna, þegar mönnum datt til dæmis í hug í alvöru að það væri ekkert mál að sökkva Þjórsárverum, því að það mætti bara búa til eins svæði einhversstaðar annarsstaðar (157). Okkar áratugur er tími efasemda um mátt tækni og verkfræði. En það er eins og þeir sem með valdið fara telji enga ástæðu til að reyna að skilja eða tileinka sér ný viðhorf eða læra af reynslunni. Þeir tala enn eins og árið sé 1960.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 22. september 2007

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *