Því er stundum haldið fram að þingmeirihlutinn hverju sinni – þingmennirnir sem styðja ríkisstjórnina – hafi umboð til valda vegna þess að þjóðin hafi kosið hann. Þess vegna sé eðlilegt að meirihlutinn ráði. Vissulega megi vera opinn fyrir samvinnu og sáttum um viss mál við minnihlutann, en í raun verði þó líta á það sem svik við kjósendur ef meirihlutinn leggur uppúr samvinnu og málamiðlunum frekar en að fylgja þeirri stefnu sem þjóðin hafi veitt stjórnarflokkunum umboð til að starfa eftir. Ég er ekki frá því að mest beri á þessari röksemdafærslu meðal sjálfstæðismanna – enda eru þeir vanir því að vera fjölmennastir á þinginu – en í sjálfu sér gæti hún vel heyrst frá öðrum. Og hvað sem menn láta sér detta í hug að segja um völd og beitingu þeirra er staðreyndin auðvitað sú að svona hefur landinu verið stjórnað að mestu leyti síðan það varð sjálfstætt, sama hver hefur verið við völd.

Síðast mátti heyra okkar prúða fjármálaráðherra rekja þessa hugsun í umræðuþætti einnar sjónvarpsstöðvarinnar á gamlársdag og þá sem fyrr reyndi enginn að mótmæla henni eða hrekja röksemdina – röng sem hún þó augljóslega er. Hvað á ég við með því? Jú, þetta er í rauninni ósköp einfalt: Á Íslandi hefur það aldrei gerst að einn flokkur nái hreinum meirihluta. Þess vegna hafa kjósendur aldrei valið sér stefnu með beinum eða skýrum hætti. Kjósendur velja sér flokk til að styðja og vilja þá líklega að sá flokkur geri ákveðna hluti, en allir vita að það veltur á samkomulagi við annan flokk eða fleiri hvort og hversu stór hluti yfirlýstrar stefnu einhvers flokks kemst til framkvæmda. Í stjórnarsáttmála verður til bræðingur úr stefnu tveggja eða fleiri flokka sem allir verða síðan að lifa með. Stjórnarsáttmáli flokkanna sem mynda meirihluta er ekki stefna sem kjósendur hafa verið spurðir álits á og þess vegna er hæpið að tala um slíka stefnu sem vilja þjóðarinnar.

Drykkjuskapur alkóhólistans og greining vínsmakkarans

Þetta hefur athyglisverðar afleiðingar. Í sjálfu sér er ekkert sem segir að stjórnin sé trúrri kjósendum sínum – það er trúrri þeim kjósendum sem kusu stjórnarflokkana – með því að fylgja sínum eigin stjórnarsáttmála út í ystu æsar heldur en með því að fara aðrar leiðir. Hvers vegna ætti samkomulag þeirra flokka sem hentar að vinna saman í ríkisstjórn að vera þóknanlegra kjósendum en samkomulag við aðra flokka á þingi um einstök mál? Í rauninni væri vel hægt að hugsa sér að flokkar hefðu aðra strategíu en meirihlutasamstarf til að ná sem mestum árangri. Í kerfi þar sem fulltrúar margra flokka takast á og vinna saman í þingsal kann vel að vera að viðtekin skipting í meirihluta og minnihluta sé bæði þunglamaleg og óheppileg. Hún komi jafnvel í veg fyrir að þingmenn geti gert sér raunverulegar vonir um að ná málum fram á þingi. Það er með öðrum orðum mjög ólíklegt að einstakur þingmaður eða hópur þingmanna geti komið máli í gegn sama hve gott það er. Hvort mál ná í gegn veltur á þeim ríku hagsmunum sem ráða innan meirihlutaflokkanna hverju sinni. Slíkir hagsmunir geta vissulega farið saman við vilja þeirra sem kusu tiltekinn flokk og jafnvel verið í samræmi við almannahag, en ekkert segir að svo hljóti að vera. Á endanum gera flokkarnir það sem þeim sýnist og þingmenn verja hollustu sína við flokkinn hverju sinni með því að halda því fram að stjórnarskráin skipi þeim að fylgja samvisku sinni.

Eins og þessi lýsing ber með sér er aðferðin sem þróast hefur við að stjórna landinu furðuleg. Enn furðulegra er að þingmenn skuli upp til hópa lifa sig inn í þá sjálfsblekkingu að þvermóðska meirihluta hverju sinni og fautaskapur þingmanna hver við annan í umræðum þingsins endurspegli vilja og hagsmuni almennings, en að samvinna og krafa um víðtæka samstöðu í stórum hagsmunamálum, ekki síst þeim sem varða skatta, gjöld og álögur kunni að stríða gegn umboði flokkanna frekar en samningarnir sem þeir gera um meirihlutasamstarf.

„Ef Alþingi er líkt við samkvæmi þá minnir það meira á hroðalega fylleríisorgíu en á huggulegt matarboð.“

Þetta veldur því að þeir sem best fylgjast með þinginu og eru gagnrýnastir á störf þess benda iðulega á að hin ytri ímynd þess sýni afskræmingu lýðræðisins fremur en að Alþingi sé fyrirmynd lýðræðislegra stjórnmála. Það er kannski djúpt í árinni tekið, en því miður er mikið til í þessu. Ef Alþingi er líkt við samkvæmi þá minnir það meira á hroðalega fylleríisorgíu en á huggulegt matarboð. Og gestirnir í boðinu verða margir ljótir í framan þegar því er haldið fram að hófsemin sé góð og betra sé að dreypa á víninu, en að hvolfa því í sig. Þeir halda að villtur gleðskapur sé meira spennandi en kurteislegar samræður yfir borðum. Tilfellið er reyndar að það virðist vera algeng skoðun að ábyrg, málefnaleg og hófstillt störf þingsins muni verða til þess að almenningur nenni síður að fylgjast með því sem þar gerist. En þá er líka gert ráð fyrir því að neysla fólks á pólitík úti í samfélaginu sé líkari drykkjuskap alkóhólistans en greiningu vínsmakkarans.

Er hægt að meta gæði ákvarðana?

Það vill svo til að það er hægt að rannsaka gæði umræðna á þingi (og öðrum vettvangi) og sýna áhrif þeirra á niðurstöður, stefnumótun og ákvarðanir. Rannsóknir á þessu sviði hafa leitt í ljós að það er samband á milli gæða umræðna – sem metin eru með tilliti til þess hvort rökum er beitt af heilindum, hvort hugað sé að sameiginlegum gæðum, hvort virðing sé borin fyrir rökum annarra, hvort vilji sé til að breyta afstöðu í ljósi raka og fleiri þátta – og gæða niðurstaðna – sem metin eru annars vegar út frá samstöðu um þær, hins vegar út frá grundvallarsjónarmiðum um félagslegt réttlæti.

Nú má hugsa sér að einhver spyrji: Hvernig í fjandanum er hægt að meta gæði ákvarðana á einhverjum almennum skala? Eru slík gæði ekki afstæð – og háð pólitískri og hugmyndafræðilegri afstöðu hvers og eins? Þessi spurning er vissulega alveg eðlileg, en hún byggir þó á þröngsýni. Ástæðan er þessi: Það er í fyrsta lagi alveg ljóst að hvað svo sem ákveðið er um til dæmis skatta, gjöld eða álögur af einhverju tagi, þá skiptir ekki aðeins máli að meirihlutinn hverju sinni komi sínu fram, heldur að ákvörðunin sé til langs tíma en verði ekki numin úr gildi strax og næsti meirihluti tekur við völdum. Þess vegna er hægt að segja að það sé betra að ákvörðun um stórt mál hvíli á víðtækri samstöðu og sátt um niðurstöðuna þar sem framtíðarmeirihlutar eru líklegir til að una við hana. Í öðru lagi er enginn raunverulegur ágreiningur um hvað felist í félagslegu réttlæti, jafnvel þótt hugmyndafræðilegur ágreiningur sé um þær leiðir eða hvata sem stuðli að réttlæti í samfélaginu. Það er til dæmis enginn ágreiningur um það í íslenskri pólitík að jafn aðgangur eigi að vera að menntun, heibrigðisþjónustu, óspilltri náttúru og svo framvegis. Ágreiningurinn er um hvers konar stefnumótun tryggi þennan jöfnuð og að hve miklu leyti hið opinbera geti stuðlað að honum. En staðreyndin er sú að slíka hluti er hægt að skoða, meta og mæla og það er hægt að taka tillit til þekkingar á þeim þegar stefna er mótuð. Að þessu leyti geta stjórnmálamenn því vel aukið – eða dregið úr – gæðum ákvarðana.

Í stuttu máli sýna rannsóknir að gæði umræðna auka gæði ákvarðana. Það er því líklegt að þing þar sem þingmenn sýna hver öðrum virðingu og reyna að vinna saman, þar sem þeir hlusta á rök hver annars og þar sem það er hugsanlegt að einn þingmaður læri af öðrum og breyti jafnvel afstöðu sinni í ljósi betri raka, nái meiri árangri heldur en þar sem hið venjubundna þvermóðskulega rifrildi ríður húsum.

Þess vegna mistekst það

Er hægt að draga einhverjar ályktanir af þessu? Kannski bara þá að það er ekkert skrítið þótt síðustu ríkisstjórn og þeirri sem nú situr takist ekki að koma í gegn sínum stærstu málum, um fiskveiðistjórnunarkerfi, veiðigjald, stjórnarskrá, gjöld vegna ferðamanna og svo framvegis. Stjórnirnar eru eins og pólitíkin í heild sinni ofurseldar kerfi og venjum sem koma í veg fyrir árangur.

Og að lokum má segja þetta um ábyrg stjórnmál: Þau er í rauninni ekki annað en stjórnmál málefnanna frekar en persónanna. Það ætti að kenna öllum lexíu að sá flokkur sem hneigist helst til að beita málefnalegum rökum í þinginu hefur verið langvinsælastur í skoðanakönnunum í meira en heilt ár. Það skyldi þó ekki vera að pólitískur alkóhólismi sé á undanhaldi í samfélaginu þótt fylleríisöskrin séu enn mest áberandi hljóðin úr Alþingishúsinu?

Birt í fjórtánda tölublaði Stundarinnar 7. janúar 2016. Sjá vefútgáfu:http://stundin.is/pistill/aetli-abyrg-stjornmal-vaeru-leidinleg-eda-hafa-gae/