Ráðherrar í ríkisstjórn hrunsins, Sjálfstæðismenn og sumt Samfylkingarfólk hefur lýst áhyggjum sínum af því að ákæra á hendur Geir Haarde fyrir Landsdómi skapi einhverskonar styrjaldarástand í íslenskum stjórnmálum, leið átaka sé tekin fram yfir leið sátta – sumir hafa jafnvel gengið svo langt að líkja Landsdómi við sýndarréttarhöld Stalíns á fjórða áratugnum. Ráðherrarnir fyrrverandi segjast allir hafi „axlað ábyrgð“ á því sem gerðist. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segjast hafa gert það með því að draga sig út úr pólitík, aðrir á annan hátt, hver með sínum hætti.

Hefur þetta fólk „axlað ábyrgð“? Hvað þýðir það nákvæmlega að axla ábyrgð?

Stjórnmálamenn geta hætt í stjórnmálum af ýmsum ástæðum og það er erfitt að sjá að með því einu að gera það taki þeir ábyrgð á mistökum. Það eru tvær ástæður fyrir því að fólk dregur sigi í hlé: Það vill eða þarf að snúa sér að öðru en pólitík eða það nýtur ekki lengur stuðnings eigin flokks eða kjósenda. Það má vissulega ímynda sér að stjórnmálamaður lýsi því yfir að vegna mistaka sinna eða hrakfara hafi hann ákveðið að segja af sér og með því axli hann pólitíska ábyrgð, en það á hvorki við um Ingibjörgu Sólrúnu, né Geir Haarde. Þau hættu annarsvegar vegna heilsubrests, hinsvegar vegna þess stuðningurinn innan flokka þeirra virtist vera að hverfa, þótt ekki reyndi á hann með beinum hætti. Björgvin G. Sigurðsson sagði að vísu af sér ráðherraembætti, en gerði það svo seint að erfitt var að sjá það sem raunverulega viðleitni til að taka á sig ábyrgð af því sem gerst hefði. Ríkisstjórnin sem hann sat í var í þann veginn að hrökklast frá völdum, hann hefði setið í embætti sínu nákvæmlega jafnlengi og hann gerði jafnvel þótt hann hefði ekki sagt af sér.

Svipað gildir um aðra ráðherra (nema Árna Mathiesen sem er hættur í pólitík): Þeir líta svo á að þeir hafi axlað ábyrgð sína pólitískt þó að stjórnmálaferill haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Hvað með þingmenn? Eina manneskjan sem hefur sagt af sér þingmennsku er Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Það gerði hún ekki til að axla ábyrgð eða til að viðurkenna mistök, heldur vegna þess að hún varð fyrir ömurlegum ofsóknum. Aðrir þingmenn sem stofnuðu rétt eins og hún til alltof náinna tengsla við penaingaöflin fyrir hrun sitja sem fastast vegna þess að þeir hafa ekki orðið fyrir sömu ofsóknum og Steinunn.

Það er því erfitt að halda því fram að nokkur hafi raunverulega „axlað“ pólitíska ábyrgð, þó að hrunið hafi vissulega gert pólitískt líf sumra stjórnmálamanna ofurlítið erfiðara en það hefði annars verið.

Hvað með siðferðilega ábyrgð? Þótt stjórnmálamennirnir noti hugtakið siðferðileg ábyrgð ekki oft þá virðast þeir halda að þá ábyrgð sína hafi þeir axlað rétt eins og pólitísku ábyrgðina. En er virkilega hægt að halda því fram? Hefur nokkur þeirra sem sátu í pólitískum valdaembættum tekist á við siðferðilega ábyrgð sína (nema þá kannski í einrúmi heima hjá sér)? Það er erfitt að sjá það og skýringin er einföld: Að horfast í augu við siðferðilega ábyrgð á hruninu jafngildir því að viðurkenna að maður hafi gert eitthvað sem telja megi siðferðilega ámælisvert. Það gæti til dæmis falist í því að aðhafast ekki jafnvel þótt maður vissi (eða ætti að vita) að nauðsynlegt væri að gera það. Það gæti falist í því að leyna upplýsingum fyrir almenningi, vitandi að það sé ekki í samræmi við manns eigin pólitík og pólitíska mælskulist. Það gæti falist í því að viðurkenna að hafa látið viðgangast að ákvarðanir væru teknar á ófullnægjandi forsendum og án þeirra umræðna eða faglega mats sem hefði átt að fara fram. Það gæti falist í því að viðurkenna að maður hefði gegn betri vitund haldið því fram að réttmæt gagnrýni væri byggð á fordómum eða heimsku gagnrýnandans. Og það gæti falist í ýmsu öðru til viðbótar.

Vandamálið er að enginn stjórnmálamaður hrunsstjórnarinnar hefur gert þetta. Enginn hefur viðurkennt að hafa gert neitt rangt. Allir sem einn hafa þeir haldið því fram að það sem gerðist hafi átt sér orsakir sem ekki hafi verið hægt að hafa áhrif á. Stjórnmálamennirnir sem voru í eldlínunni viðurkenna aðeins að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig ástandið var í raun og bæta því svo við að enginn hafi áttað sig á því. Með öðrum orðum: Þeir viðurkenna enga sekt. Mistökin eru að þeirra áliti mistök sem allir hefðu gert í þeirra stöðu.

Þegar því er haldið fram að hin lagalega leið, ákæra fyrir Landsdómi og málsmeðferð í framhaldi af því, komi í veg fyrir sættir eða að þeir sem ábyrgð bera horfist í augu við hana, þá gleymist aðalatriðið: Það getur enginn krafist sátta eða umburðarlyndis nema vera um leið tilbúinn til að viðurkenna siðferðilega sekt sína. Geir Haarde getur aðeins vænst þess að vera ekki ákærður, sé hann tilbúinn til að stíga fram og viðurkenna að hann hafi ekki verið fórnarlamb aðstæðna, heldur sé sekur um siðferðilega ámælisverða starfshætti. Hann er ekki tilbúinn til þess. Sama gildir um Ingibjörgu Sólrúnu, fyrir utan eitt augnablik á Samfylkingarfundi, þar sem virtist þyrma yfir hana.

Í stað þess að viðurkenna og leita þar með sátta, kjósa foringjarnir föllnu og samstarfsmenn þeirra að verja sig. Með dramatískum yfirlýsingum halda þeir því fram að hinir sem finnst þetta ekki nóg séu að vega að lýðræðinu. En þetta fólk verður að líta í eigin barm. Vilji það sættir þarf það sjálft að eiga frumkvæði að þeim. Það verður að hætta að verja sig og byrja að viðurkenna.

4 replies
  1. jonolafs
    jonolafs says:

    Tjah, já það var kannski eitthvað í áttina. Hún stígur skrefið hugsanlega til fulls nú þegar hún þarf ekki lengur að óttast Landsdómskæru. Það væri amk rökrétt, en ekki að sama skapi líklegt miðað við yfirlýsingar hennar síðustu daga.

    Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *