(Flutt á fundi á vegum ReykjavíkurAkademíunnar um ábyrgð, þjóð og völd, Háskólabíói 25. október 2008)

Þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum á síðasta áratug bjó ég lengi vel nálægt veitingahúsi nokkru. Þar tóku einhverntímann nýir eigendur við og innréttuðu upp á nýtt. Hluti af innréttingunni var heill veggur með heimskorti þar sem löndin voru gerð úr söguðum steini. Þegar staðurinn var nýopnaður eyddu tveir Íslendingar úr nágrenninu kvöldi á staðnum og urðu mjög hrifnir af kortinu, þó eitt gerði þá dapra: Ísland var ekki á því. Þeir nefndu þetta strax við eiganda staðarins og spurðu hann hvort ekki væri hægt að kippa þessu í liðinn, enda nóg pláss þarna í Norður-Atlantshafinu. Hann tók þessari málaleitan af skilningi. Ekkert gerðist nú næstu vikur en Íslendingarnir ítrekuðu þetta nokkrum sinnum og á endanum lét eigandinn verða af þessu. Einn daginn trónaði stórt og glæsilegt Ísland á sínum stað milli heimsálfanna. Íslendingarnir tveir ákváðu að fagna þessu með því að eyða aftur kvöldi á staðnum með stærri hópi fólks og tóku sér borð við kortavegginn, beint undir Íslandi. En þá varð harmleikurinn: Ekki var kvöldið hálfnað þegar Ísland losnaði af veggnum og hrapaði ofan á borðið þeirra beint ofan í matinn og drykkina.

Mér hefur alltaf þótt sagan fyndin en þó tæplega eins írónísk og um þessar mundir. Við erum ekki alveg í ólíkri stöðu: Eftir að vera búin að berjast fyrir því um langa hríð að koma Íslandi á kortið hrapar það ofan á okkur einmitt þegar við erum upptekin við að njóta krásanna.

Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað hefur komið fyrir orðspor Íslands á alþjóðlegum vettvangi síðustu daga. Bankakreppan og fjármálahrunið eru dramatískir og ófyrirséðir atburðir, en samt var atburðarás af þessu tagi aldrei útilokuð í augum fagmanna, þótt flestir virðast hafi talið að nær engar líkur væru á henni. Hitt, fullkomið hrun þess álits sem Íslendingar töldu sig hafa á alþjóðlegum vettvangi, er nokkuð sem fæsta óraði fyrir, en ástæðan var kannski falskt öryggi um ágæti þess sem hér væri búið að byggja upp. Hingað til virðast flestir, ekki síst stjórnvöld hafa litið svo á að álit og ímynd væri eitthvað sem ekki yrði frá manni tekið. Í frægri ímyndarskýrslu sem forsætisráðuneytið lét hóp auglýsingafólks gera fyrr á þessu ári er áherslan öll á það að nauðsynlegt sé að byggja sjálfsmynd á RÉTTUM hugmyndum um sjálfan sig, frekar en röngum.

Hinsvegar er skýrslan að sögn höfundanna byggð á viðtölum við stóran rýnihóp, og í henni birtist fyrst og fremst viðhorf þessa rýnihóps til sjálfs sín sem einstaklinga og sem Íslendinga. Það er tiltölulega augljós aðferðafræðileg gloppa í þessu: Ef rýnihópurinn sem rætt er við þjáist af kollektífri sjálfsblekkingu, þá mun sú sjálfsblekking birtast sem „raunveruleiki“ sem „ekta“ í skýrslunni og það er nákvæmlega það sem virðist hafa gerst. Skýrslan er uppfull af innantómu þvaðri um hvernig Íslendingar séu og hvernig þeir upplifi sig, en hvorki skýrsluhöfundar né viðmælendur átta sig á að þessi upplifun er byggð á einfaldri en mjög sterkri sjálfsblekkingu. Þegar skýrslan kom út voru margir sem bentu á þessa þversögn, það er að segja skýrslan átti bæði eða sýna viðhorf Íslendinga til sjálfra sín og draga ályktanir og veita ráð um ímyndarsköpun. En sé sjálfsmyndin sjálfsblekking, er hætt við að ímyndarsköpunin sé blekking líka.

Ég held að það sé tilgangslaust að úthúða skýrsluhöfundunum eða skýrslunni sjálfri. Það er betra að taka hana fyrir það sem hún er: Heimild um risavaxna sjálfsblekkingu sem hafði heltekið stærstan hluta ráðandi afla í landinu. Hún nærðist á þeirri staðreynd að Íslendingar höfðu auðgast á mjög skömmum tíma og um leið orðið sannfærðir um yfirburði sína fram yfir aðrar þjóðir. Jafnvel forseti Íslands var heltekinn af sjálfsblekkingunni og byrjaður að ferðast um heiminn til að lesa yfir fólki um hvernig það ætti að hegða sér ef það vildi vera eins og Íslendingar.

Hömlulaus sjálfsánægja er andstæða takmarkalausrar sjálfsfyrirlitningar og þetta tvennt er iðulega hluti af sama sjúkdómi. Það er ansi hætt við að nú taki þunglyndi við af maníu og vonandi er forsetinn með góðan geðlækni.

Það er annar hluti útrásarinnar, til viðbótar við þessa hömlulausu sjálfsánægju sem fólk hefur kannski ekki verið nægilega næmt á. Það er sá herskái orðaforði sem hefur þótt sjálfsagt að nota um útrásina og bankauppbygginguna. Það þykir sjálfsagt að líka athafna- og bankamönnunum við víkinga og lýsa aðferðum þeirra sem stríðsaðgerðum eða skæruhernaði. Þetta er hluti af hugmyndinni um yfirburði Íslendinga, en gengur lengra: Að snerpa og samkeppnisfærni, sem líkja má við hernaðarlega yfirburði veiti Íslendingum ákveðinn rétt til að hrifsa eignir af öðrum, yfirtaka rekstur fyrirtækja og banka. Það er merkilegt að lítið eða ekkert skuli hafa verið hugsað út í neikvæðar hliðar svo herskás málflutnings.

Ein spurningin nú er sú hvernig við eigum að tala um það sem gerst hefur. Það er til jákvæð túlkun á atburðum sem er einhvern veginn svona: Krafturinn, hugmyndaauðgin og frelsisþráin hljóp með Íslendinga í gönur. Menn sáust ekki fyrir, tók of mikla áhættu og afleiðingarnar urðu slæmar, en við tökum þessu með brosi, pössum okkur betur næst. Samkvæmt þessu viðhorfi gerðist í rauninni ekkert hjá okkur annað en það að við fórum of geist, við þurfum þá ekki að horfa í eigin barm ekki að endurskoða neitt heldur. Þetta er til dæmis túlkun margs auglýsingafólks eins og þess sem gerði skýrsluna frægu. Þá setjum við hrunið í jákvætt ljós og reynum að læra af því. Önnur túlkun, gagnrýnni er á þessa leið: Hér var keyrð ákveðin pólitík sem gekk út á að kynda undir útrás þröngs hóps athafnamanna án þess að nokkrar efasemdir væru um hugsunina að baki útrásinni. Athafnamönnunum voru gefnar frjálsar hendur og litið fram hjá siðlausum (og kannski löglausum) aðferðum við að byggja upp viðskipta- og bankaveldi.

Ég held að seinni túlkunin sé miklu nær lagi en hin fyrri, þó að hún sé neikvæðari og síður til þess fallin að stuðla að því að útrásin haldi ótrauð áfram eins og sumir virðast halda að geti gengið. Þessvegna spyr maður sig hvort það sé einhver möguleiki á því að hér sé hægt að fara í einhverskonar gagnrýna úttekt á ímynd og sjálfsmynd og gera sér raunverulega raunsæja mynd af því með hvaða hætti hægt er að byggja upp ímynd Íslands úr því sem komið er?

Það er mjög erfitt á þessari stundu að gera sér grein fyrir því hvernig þetta er hægt, ekki síst vegna þess að á endanum veit maður ekki alveg hvað það er sem felst í orðinu við. Það eru draumórar að halda að í nútímasamfélagi geti fólk eins og í samhentri fjölskyldu rætt um mistök og misgerðir, komist að niðurstöðu og náð sáttum. Svona gerast hlutirnir ekki. Það er hinsvegar mikilvægt að sá stóri hópur fólks sem hefur í rauninni haldið að sér höndum að mestu láti til sín taka og hafi meiri áhrif. Það er einfaldlega til marks um hugmyndafátækt að halda að það sé hægt að ráða auglýsingafólk og nokkra grafíska hönnuði til að setja fram ímynd Íslands, með fullri virðingu fyrir faglegri hæfni auglýsingafólks og hönnuða.

Stjórnvöld nú vilja gjarnan láta líta svo út að það sé hægt að ná áttum og komast í gegnum erfiðleikana með samstöðu og vináttu. Þetta er skiljanlegt því að sjálfsögðu vilja þau halda völdum. En trúverðugleiki ímyndarinnar verður aldrei mikill taki ekki við uppskurður á því kerfi sem leyfði því að gerast sem gerðist. Þar á meðal þarf að taka fyrir sjálfsmyndina: Það er jafn mikilvægt að koma í veg fyrir djúpa sjálfsfyrirlitningu og að koma í veg fyrir að ný manía taki við af þeirri sem nú hefur kollkeyrt sig.

Mig langar að enda á annarri sögu, sem á sinn hátt tengist útrásinni. Fyrir rúmlega tveimur árum tók ég þátt í hugarflugsfundi á vegum Rannsóknamiðstöðvar Íslands sem var ætlað að styðja við stefnumótun á sviði vísinda. 50 manna hópur eyddi tæplega tveimur dögum í að setja á blað hugmyndir sínar um hvar Ísland yrði statt á hinum ýmsu sviðum vísinda árið 2015. Svo voru hugmyndirnar kynntar. Það merkilega við þær var að þátttakendurnir töldu að á mörgum sviðum vísinda yrði Ísland beinlínis leiðandi innan nokkurra ára. Þetta átti jafnvel við um svið sem alls ekki tengdust þeim efnum sem Íslendingar hafa sérþekkingu á, það er fiski, eldgosum og handritum.

Þetta er merkilegt vegna þess að hér var ekki um útrásarvíkinga að ræða heldur vísinda- og fræðasamfélagið sem er í eðli sínu íhaldsamt fyrirbæri og sýnir betur en margt hversu djúpt víma útrásarinnar náði.

Íslendingar höfðu lengst af í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar og á 20. öld fyrst og fremst áhuga á því að ölðast viðurkenningu sem jafningjar og jafnokar annarra í alþjóðasamfélaginu. Á seinni árum hefur þetta markmið þokað fyrir öðru: Að þröngva öðrum þjóðium til að viðurkenna yfirburði okkar. En eins og málin standa nú virðist það vera verðugt verkefni að og metnaðarfullt að hverfa aftur til gamla markmiðsins og halda því á lofti.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *