Tvö rit eftir Klemens frá Alexandríu, Hjálpræði efnamanns og Fræðarinn I hafa komið út í Lærdómsritum hins íslenska bókmenntafélags á síðustu tveimur árum, bæði tvö í þýðingu Clarence E. Glad. Þetta eru stutt rit, hið fyrrnefnda rúmar 50 síður í broti Lærdómsritanna, hitt rúmar 100 síður. Báðum fylgja hinsvegar afar ítarlegir fræðilegir inngangar, 110 síður í fyrri bókinni, rúmlega 150 síður í þeirri síðari og ríkulegar skýringar sem varða heimspekileg, söguleg, guðfræðileg og textafræðileg efni auk þess að innihalda að nokkru leyti hefðbundna ritskýringu og skýringar á einstökum þýðingalausnum. Hér er því um tvö vegleg rit að ræða, það fyrra um 300 síður en hið síðara rúmar 450 síður.
Klemens frá Alexandríu er einn svonefndra kirkjufeðra. Hann var upp á annarri öld eftir Krist og er einn þeirra höfunda í fornöld sem áttu mestan þátt í þeim samruna grískrar og gyðinglegrar hugsunar sem einkennir kristna hugsun enn þann dag í dag. En þó að Klemens sé merkur höfundur er ekki þar með sagt að verk hans séu skyldulesning utan fræðaheims guðfræði, fornfræði og kristnisögu. Það segir líklega sína sögu um hve sérhæfður lesendahópur Klemensar hefur verið að ritin tvö, Hjálpræði efnamanns og fyrsta bók Fræðarans eru ekki aðeins að koma út á íslensku í fyrsta sinn, Hjálpræði efnamanns hefur ekki fyrr verið þýtt á Norðurlandamál og ekki er að sjá af þeirri skrá yfir þýðingar sem Clarence birtir með þýðingu sinni á Fræðaranum að um norrænar þýðingar á honum sé heldur að ræða.1
En sú staðreynd að vandaðar þýðingar á ritum Klemensar frá Alexandríu ætlaðar almennum lesendum eru ekki á hverju strái þýðir ekki að það sé ekki fengur að þeim á íslensku. Ritin tvö sem Clarence E. Glad hefur þýtt úr frummálinu sýna vel að Klemens á erindi við áhugamenn um fornfræði, fornaldarheimspeki og hugarheim fornaldar almennt, auk þess að fjalla um ákveðin grundvallaratriði kristinnar hugsunar sem enn þann dag í dag eru snar þáttur í almennum lífsviðhorfum á Vesturlöndum. Það má segja að þessi rit séu hluti af bakgrunnsvef kristilegrar hugsunar og grískrar heimspekihefðar sem átti sér yfir 500 ára sögu á dögum Klemensar, en var þó að miklu leyti ofinn á fyrstu 2-3 öldum okkar tímatals.
Ritin sjálf
Hjálpræði efnamanns fjallar eins og nafnið gefur vísbendingu um, hvort og að hve miklu leyti auður geti komið í veg fyrir að menn njóti guðlegrar náðar og komist í himnaríki. Heimspekileg afstaða Klemensar kemur vel fram í því hvernig hann tekur á þessari spurningu. Í fyrsta lagi leitast hann við opna augu lesenda sinna fyrir hinum mörgu leiðum til að túlka orð ritningarinnar og aðra texta sem virðast benda til þess að efnaður maður geti ekki vænst þess að komast í himnaríki og að það að vera kristinn maður krefjist þess að menn gefi frá sér auðæfi sín. Það sem gerir ritið ekki hvað síst áhugavert er einmitt hin frjálslega túlkunarafstaða. Klemens segir Frelsarann kenna „með dulrænni og guðlegri visku“ og þessvegna er lykilatriði að ráða í og túlka orð hans.2
Spurningin um auðæfi og hvernig fara beri með þau hefur í gegnum aldirnar birst í ólíkum myndum og er ein þeirra spurninga sem alltaf leita á hinn kristna einstakling. Trúarbrögð sem í kjarna sínum leggja áherslu á sjálfsafneitun og leggja mikið kapp á jöfnuð og einfaldleika hljóta stundum að taka á sig mynd meinlætanna og þá er hreinsun sálarinnar iðulega lögð að jöfnu við hreinsun sjálfsafneitunarinnar og jafnvel sjálfspyntinga í öfgafyllstu myndum kristininnar. Klemens bendir hinsvegar á, og þetta má segja að sé einn meginþráður verksins, að engar athafnir eða ytri umbúnaður sé eitt og sér nóg til að öðlast eða glata guðlegri náð. Allar aðstæður mannsins eru þannig að hann hefur tækifæri til að vinna úr þeim á ýmsa vegu og þannig er það líka með auðæfi: það er hægt að nota þau skynsamlega eða óskynsamlega, til góðra verka eða illra. Með því að kasta frá sér krankleika sálarinnar – losa sig við ástríður – er maðurinn kominn af stað í rétta átt.3
Það má sjá mörg stef og röksemdir heimspeki fornaldar endurspeglast í því hvernig Klemens meðhöndlar spurningar um auð og tengir við rétta breytni og rétt hugarfar. Clarence bendir á í inngangi að viðhorf Klemensar hafi meðal annars einkennst af skynsemishyggju sem krefst þess að trúin sé skýrð með leiðum heimspekinnar. En skoðanir hans mótast einnig af menningarlegri og trúarlegri fjölbreytni sem einkenndi Alexandríuborg og fleiri staði í kringum Miðjarðarhafið á tímum Klemensar. Staðgóð þekking hans, sem jafnvel mætti ætla að hafi verið yfirburðaþekking, á heimspeki fornaldar gerir það að verkum að tök hans á spurningum eru í senn lærð og léttileg. Hjálpræði efnamanns er einfaldur texti og blátt áfram eins og reyndar gildir um marga texta fornaldar.
Alveg eins og verk grísku heimspekingannar sem skrifuðu nokkrum öldum fyrir daga Klemensar, er andi þessa stutta verks þannig að það er sumpart eins og nútímamaður hefði getað skrifað það. Ráðleggingar þess eru praktískar, röksemdirnar einfaldar og skýrar og lausar við alla þrætubók. Það er vitnisburður um hvernig kristileg umræða og hugvekja var í frumkristni á meðan kirkjan hafði ekki náð því ógnarvaldi sem síðar varð.
Þrátt fyrir allt gerir menning okkar það að verkum að túlkunarspurningar eins og hvað það sé að vera fátækur í anda, eða hvernig eigi að líta á og meðhöndla félagslegan og efnahagslegan ójöfnuð halda áfram að vera brýnar spurningar hvort heldur er fyrir samfélög eða einstaklinga. Það skiptir í rauninni ekki máli hvort lesandinn er sjálfur kristinn eða hver afstaða hans til trúarbragða er nákvæmlega. Orðfæri kristninnar og hversdagslegar rökræðuaðferðir hennar eru einfaldlega innbyggðar í vestrænan hugsunarhátt.
Það góða við Klemens, og á endanum kannski það einkenni hans sem gerir að verkum að það er áhugavert og gagnlegt að lesa Hjálpræðið enn þann dag í dag, er hversu laus hann er við að reyna að einfalda svör sín úr hófi, þó að orðalagið sé blátt áfram. Það er greinilegt að Klemens beinir orðum sínum til upplýsts og hugsandi fólks. Í stað þess að innprenta einfaldar eða einfeldningslegar lausnir á vafamálum kristins hugsunarháttar gerir hann lesendum sínum grein fyrir hve mikilvægt það er að sjá margar túlkunarleiðir. Þessvegna verður hinn kristni hugsandi maður að sjá hugtök á borð við auðæfi, ríkidæmi, fátækt eða einfaldleika í margvíslegu ljósi. Engin afstaða til slíkra hluta er einhlít.4
Ég verð að viðurkenna að Fræðarinn I slær mig ekki á sama hátt og Hjálpræðið. Hér virðist um sérhæfðari texta að ræða: á meðan Hjálpræðið er stutt umfjöllun um ákveðna spurningu sem varðar í senn túlkun og heimspekilega úrvinnslu, er Fræðarinn, eins og nafnið gefur til kynna, uppeldisrit og hefur þann tilgang að lýsa annarsvegar Kristi sem fræðara og hinsvegar að gera kristilegri fræðslu skil, en það gerir Klemens út fra´ þrískiptingu sálarinnar. Þannig er Kristur sem fræðari í senn sá sem hvetur, veitir ráð og huggar og hefur með því áhrif á siðvenjur, hegðun að öðru leyti og ástríður.5
Strax í upphafi bókarinnar er gerður greinarmunur á praktískri þekkingu og teoretiskri sem viðtekinn var í fornöld og kemur til dæmis skýrt fram í ritum Aristótelesar, þar sem teoria varðar örugga þekkingu á heiminum en praktísk þekking varðar rétta hegðun og breytni.6 Klemens skýrir hina ólíku miðla fræðslunnar, svo sem gildi dæmisögunnar og fordæmisins, en að inngangsorðum af því tagi loknum snýst bókin að mestu leyti um að skýra merkingu ýmissa staða í ritningunni og ræða ólíkar túlkanir á einstökum atvikum, atburðum, persónum og hugtökum. Þó að víðsýni Klemensar sé engu minni en í Hjálpræðinu er viðfangsefnið ekki jafn grípandi. Clarence færir að vísu ágæt rök fyrir því að hér megi öðlast nokkurn skilning á grískum, rómverskum og frumkristnum viðhorfum til uppeldis og menntunar og í inngangi gerir hann grein fyrir grísku þroskahugsjóninni sem fléttast með áhugaverðum hætti saman við kristna hugsun í þessu riti Klemensar.
Þó að hin grískættaða rökræðuaðferð birtist greinilega í texta Klemensar verða þeir samt fyrir vonbrigðum sem vonast til að finna eitthvað í líkingu við þær rökræður sem einkenna grísku heimspekina og þá ekki síst samræður Platóns, í riti Klemensar. Fræðarinn vekur því ekki jafn mikinn almennan áhuga og Hjálpræðið, þó að vissulega sé hann einnig áhugaverð kristileg og heimspekileg heimild frá þeim tímum þegar kristin túlkunarhefð var enn í mótun.
Fræðarinn I er aðeins fyrsti hlutinn af stærra riti sem Clarence gerir grein fyrir í eftirmála. Væntanlega hefur það þótt duga til að veita innsýn í verk og hugsun Klemensar að þýða þennan fyrsta hluta verksins en engin áform virðast vera um að þýða verkið allt.
Útgáfan
Bæði ritin Hjálpræði efnamanns og Fræðarinn I eru vönduð rit og mikil vinna hefur verið lögð í inngang og skýringar af hálfu þýðandans. Þýðing fyrra verksins var borin saman við frumtexta í heild af grískumanni og vönum þýðanda, Svavari Hrafni Svavarssyni, en Gottskálk Þór Jensson, sem einnig hefur þýtt úr forngrísku, bar hluta af Fræðaranum saman við frumtexta. Þýðingin virðist því vel unnin auk þess sem Clarence gerir oft grein fyrir þýðingalausnum sínum. En þrátt fyrir þetta virðist mér ýmislegt athugavert við útgáfu seinna ritsins og hún að mörgu leyti vanhugsuð.
Hjálpræði efnamanns er sem fyrr segir ekki í hópi þekktari eða mikilvægari texta frumkristni þó að ritið sé vissulega hið athyglisverðasta. Klemens er ekki eitt af stóru nöfnum kirkjusögunnar og í ljósi þeirrar staðreyndar skýrir Ólafur Páll Jónsson, ritstjóri Lærdómsritanna, þá ákvörðun sína að láta inngang sem er mun lengri og skýringar sem eru talsvert ítarlegri en venja er hjá Lærdómsritunum fylgja þessum texta. Það er hinsvegar óneitanlega skoplegt að þegar rit eftir sama höfund er gefið út tveimur árum síðar, með ennþá meiri skýringum og ennþá lengri inngangi telur ritstjórinn það ekki þarfnast neinna sérstakra útskýringa í hefðbundnum eftirmála sínum.
Staðreyndin er sú að Hjálpræðið er vel heppnað rit og þó að skýringar og inngangur sé með ítarlegra móti er það innan velsæmismarka. Fræðarinn hefur hinsvegar farið algjörlega úr böndunum. 150 síðna inngangur Clarence E. Glad fer yfir víðara svið en inngangur Hjálpræðisins, en endurtekur þó margt úr fyrri innganginum. Það er erfitt að skilja þá ákvörðun að láta inngang sem einn og sér er á borð við heilt Lærdómsrit fylgja ritinu. Eðlilegra hefði verið að takmarka innganginn við það sem nauðsynlegt er að lesendur viti áður en þeir lesa textann sjálfan, en vísa að öðru leyti í fyrri inngang um Klemens sjálfan, ævi hans og störf.
Hinar ítarlegu skýringar við texta Fræðarans I (678 aftanmálsgreinar) eru nokkuð óskipulegar. Clarence er fjölmenntaður maður og því eru skýringar hans jafnt guðfræðilegs, heimspekilegs og textafræðilegs, sem málfræðilegs og þýðingafræðilegs eðlis. Þessu ægir öllu saman. Í einni aftanmálsgrein er almenn hugleiðing um merkingu eða notkun tiltekinna hugtaka í fornöld, í þeirri næstu er sögulegur fro´ðleikur eða skyndilega ítarlegar samnaburðarvísanir og svo má áfram telja.
Maður spyr sig vissulega þeirrar spurningar hverjum útgáfan sé ætluð. Á meðan Hjálpræðið hefur tvímælalaust þann góða tilgang að höfða jafnt til almennings og sérhæfðari lesendahóps fræðimanna eða háskólastúdenta, er gengið frá Fræðaranum eins og hugmyndin sé að safna saman öllu því efni sem kynni að vera gagnlegt fyrir nemendur í guðfræði að hafa á einum stað, séu þeir látnir lesa þetta verk Klemensar í námskeiði. En um leið verður það ha´lfgerður óskapnaður sem almenningsrit.
Lærdómsritin eru orðin merk ritröð og langlíf og um leið röð sem hefur skapað sér ákveðnar hefðir. Ein hefðin er sú að með þessum bókum hafa klassísk fræðirit verið gerð almenningi aðgengileg. Önnur hefðin er sú að vel hefur verið vandað til skýringa en þær jafnframt miðaðar við þörfina hverju sinni. Þannig getur til dæmis tilvist ákveðinna uppflettirita á íslensku minnkað þörf fyrir skýringar á vissum atriðum. Skortur á slíkum ritum gerir aftur á móti að verkum að nauðsynlegt er að hafa skýringar með sem annars væri ekki að finna í útgáfum sömu verka í öðrum löndum. Það er því alltaf afstætt hve mikilla skýringa er þörf til þess að lesendur sem ekki eru sérfræðingar um þau efni sem einstök rit fjalla um geti engu að síður haft gagn og ánægju af verkunum. En þetta merkir líka að hlutverk ritstjóra hverju sinni er að vega þetta og meta. Mín skoðun er sú að framan af hafi þetta iðulega tekist með ágætum. Mörg þeirra lærdómsrita sem gefin hafa verið út hvað eftir annað undanfarna áratugi, svo sem Frelsið eftir John Stuart Mill, Samræður Platóns og fleiri, koma vissulega út aftur og aftur vegna þess að um klassíska texta er að ræða sem stöðug eftirspurn er eftir, en að mínu áliti líka vegna þess útgáfurnar eru frá upphafi vel heppnaðar, með góðum, knöppum skýringum og inngöngum sem gera sitt gagn.
Það hefur færst í vöxt að einstök klassísk rit séu gefin út í tveggja binda útgáfum Lærdómsritanna. Dæmi um þetta eru Ríkið eftir Platón og Siðfræði Nikómakkosar eftir Aristóteles, og nú síðast Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin. Slíkt er ágæt leið þegar um er að ræða þekktustu verk fyrri alda, en er ekki jafn augljóslega rétt þegar um minna þekkt eða síður mikilvæg verk er að ræða. Þannig væri fráleitt að gefa Fræðarann út í tveggja binda útgáfu við hlið verka sem almennt eru talin meðal stórvirkja sögunnar. Það er jafn fráleitt að gefa rit sem í raun eru minnháttar, þó athyglisverð séu og kannski vanmetin, í hnausþykkum bókum með hundruðum eða þúsundum aftanmálsskýringa. Kúnstin er að finna það form útgáfunnar að það sé skýrt sem skýra þarf án þess að gengið sé of langt. Ritstjórn slíkra verka getur verið vandasöm, því ritstjórinn má ekki gefa þýðanda og skýranda alveg frjálsar hendur en verður að reyna að finna rétta meðalveginn til að halda eðlilegum hlutföllum. Mér virðist þetta hafa mistekist gersamlega með Fræðarann og því er útgáfan sjálf, þrátt fyrir hina miklu og vönduðu vinnu þýðandans sem í henni liggur því miður ekki vel heppnuð.
Þetta verður að skrifast á ritstjórann, því að þegar upp er staðið þá er það hans verk að halda svip og hugmyndafræði ritraðarinnar. Auðvitað er hin vandaða textavinna sem einkennir flest Lærdómsritanna þeirra helsta prýði. En hún er lítils virði ein og sér. Það þarf líka að vera skýrt um einstök verk hversvegna verið er að gefa þau út og hverjum þau eru ætluð. Það slær mig sérkennilega sem Ólafur Páll skrifar í eftirmála beggja bókanna, að þýðandinn hafi „haft frumkvæði“ að útgáfu þeirra. Vafalaust er tilgangur hans sá að láta það koma fram að þýðandinn sé mestur sérfræðingur á þessu sviði og að það sé honum að þakka að af þessum útgáfum hefur orðið. En þetta kemur skringilega út í ljósi þeirra galla sem ég hef bent á og verkar á mann eins og Ólafur Páll vilji koma ábyrgðinni af útgáfunni yfir á þýðandann.
Þó að Lærdómsritin njóti Evrópskra þýðingastyrkja sem krefjast þess að hratt sé gefið út og fjölga þeim verkum sem Lærdómsritin geta komið út, þá er mikilvægt að þau falli ekki í þá gryfju að verða einskonar útgáfuþjónusta þeirra sem liggja með efni eða eru duglegir að þýða það sem þeir hafa áhuga á. Ritstjórnina verður að taka fastari tökum en Fræðarinn er vitni um. Um leið og fókusinn hverfur úr útgáfunni er hætt við að Lærdómsritin missi þá sérstöðu sem þau hafa lengst af haft, sem aðgengilegar og vandaðar útgáfur klassískra verka eða áhugaverðra og brýnna fræðilegra verka sem eiga jafn vel heima á stofuborðinu og í kennslustofunni.
Loks langar mig að nefna eitt smávægilegt atriði sem þó skiptir alltaf máli við frágang þýðinga úr málum sem hafa annað stafróf en hið latneska. Í Hjálpræði efnamanns er notuð leturgerð þar sem rituð eru orð og setningar á grísku sem fellur vel að þeirri leturgerð sem notuð er á íslenskan texta verksins. Í Fræðaranum er hinsvegar notuð einhver allt önnur leturgerð á grísk orð sem stingur í stúf annan texta. Þetta leturmisræmi er ekki síst þreytandi fyrir það að þýðandinn umritar ekki en vísar iðulega í heilar setningar á grísku með upprunalegu letri. Vonandi verður þess gætt í framtíðinni að betra samræmi sé í þessu.

Neðanmálsgreinar
1 Sjá Hjálpræði efnamanns, bls. 259; Fræðarinn I, bls. 397-401.
2 Hjálpræði efnamanns, bls. 134.
3 Sjá Hjálpræði Efnamanns bls. 143-144, 151.
4 Sjá Hjálpræði Efnamanns, bls. 150.
5 Fræðarinn I, Inngangur, bls. 154.

Klemens frá Alexandríu. Hjálpræði efnamanns. Ísl. þýð. Clarence Glad sem einnig ritar inngang. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002. 320 bls.
Klemens frá Alexandríu. Fræðarinn I. Ísl. þýð. Clarence Glad sem einnig ritar inngang. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004. 457 bls.
Birt á Kistunni (www.kistan.is) í júlí 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *