Undanfarnar vikur hafa birst greinar í Lesbók Morgunblaðsins um kalda stríðið þar sem höfundar reyndu að endurmeta vissa þætt kalda stríðsins, ekki síst orðræðu þess. Ég skrifaði eina af þessum greinum og reyndi í henni að færa rök fyrir því að þær persónulegu ofsóknir og einelti sem einkenndu kalda stríðið hefðu haft ýmsar skaðlegar og takmarkandi afleiðingar fyrir íslensk stjórnmál.
Björn Bjarnason skrifaði grein í sama flokki og kallaði hana „Undan köldu stríði“. Í grein sinni heldur Björn því fram að umræðuhefð kalda stríðsins lifi góðu lífi og fullyrðir að þeir sem á undanförnum misserum hafa gagnrýnt hann og sjónarmið sem hann aðhyllist eða hefur samúð með sýni „yfirlæti“ (sjá vefsíðu Björns, bjorn.is, þar sem hann birtir grein sína líka).
Það er merkilegt að Björn skuli taka andstöðuna svona nærri sér og líta svo á að gagnrýni á stefnu bandarískra stjórnvalda, á öryggisstefnu íslenskra yfirvalda, á aðgerðir og áætlanir ríkislögreglustjóra, á Hannes Hólmstein Gissurason fyrir ævisögu hans um Halldór Laxness og á forystumenn stjórnarflokkanna sé yfirlætisfull. Þessi gagnrýni er iðulega vel rökstudd og sett fram æsingalaust.
Hér er fellur Björn í sömu gryfju og margir stjórnmálamenn sem hallir eru undir valdstjórn: Hann gefur sér einfaldlega að beitt gagnrýni sem beinist að honum sjálfum eða sjónarmiðum sem hann aðhyllist sé ómakleg. Hann einblínir á mælsku og orðanotkun án þess að skeyta um ástæður gagnrýninnar og rök.
Þetta er merkilegt vegna þess að slík viðbrögð við gagnrýni bera einmitt öll einkenni þeirrar vænisýki sem margir voru haldnir á tímum kalda stríðsins.
Maður kemst því ekki hjá því að velta fyrir sér hversvegna Björn kalli grein sína Undan köldu stríði. Hver er undan kalda stríðinu? Er Björn sjálfur ef til vill undan kalda stríðinu – skilgetið afkvæmi þess?

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *