(Um bókina Orðspor. Gildin í samfélaginu eftir Gunnar Hersvein, JPV, 2008)

Það er merkileg tilviljun að bókin Orðspor skuli koma út einmitt á sama tíma og vart er meira talað um annað en orðspor Íslendinga úti í heimi. Flest af því sem Gunnar Hersveinn hefur að segja er líka orð í tíma töluð og honum ratast sannarlega satt orð á munn þegar hann segir snemma í bókinni: „Fullyrt hefur verið að orðspor þjóðar geti verið margra milljarða virði í viðskiptum“ (8). Tæplega hefur hann þó grunað að þessi setning yrði jafn kirfilega sönnuð og raunin er orðin á síðustu vikum.

Gunnar Hersveinn er sumpart klassískur móralisti. Hann stillir upp nokkrum megindygðum, vandar um fyrir fólki og bendir á hin sönnu gildi í samfélaginu. En hann hefur sig líka upp yfir það hlutverk, því að hann er, ólíkt móralistanum róttækur frekar en íhaldssamur. Honum svíður misréttið og skeytingarleysið sem blasir við á svo mörgum sviðum samfélagsins og hann hikar ekki við að mæla með róttækum aðgerðum til að vinna bug á því.

Bókinni er skipt upp eftir þemum og eru þemakaflarnir mjög mislangir. Þeir eru líka misgóðir. Bestur finnst mér kaflinn um jafnrétti þar sem Gunnar tekur mörg dæmi um kynjamisrétti sem lifir góðu lífi jafnvel þó að menn telji sig hafa útrýmt því. Hann er hlynntur aðgerðum til að stuðla að því að kynjahlutföll í stjórnum og ráðum séu sem jöfnust og færir rök fyrir því að það sé mikilvægt að konur komi í raun að ákvörðunum til jafns við karla, það dugi ekki að möguleikar þeirra séu formlega hinir sömu, ef karlar eru áfram yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem taka helstu ákvarðanir. 

Kaflinn um trúmál er líka vel uppbyggður og í honum nýtur frumleiki Gunnars sín vel ekki síst þegar hann skrifar um „góða fólkið“ sem „hefur ákveðnar skoðanir um hvernig hlutirnir eiga að vera og hvernig fólk á að hegða sér“ (184). Ég er ekki frá því að í þessum kafla skíni í gegn ákveðin írónía, sem Gunnar fer yfirleitt afskaplega vel með, stundum jafnvel of vel.

Kaflar um fjölmiðla, umhverfi, samfélag og uppeldi eru líka áhugaverðir hver fyrir sig þó að efnisval í þeim sé tilviljanakenndara. Jafnréttismálin má líka segja að séu rauði þráðurinn í bókinni. Þau eru Gunnari greinilega efst í huga.

Gunnar Hersveinn er áhugaverður höfundur og að mörgu leyti sérkennilegur. Hann skrifar einfaldan stíl sem við fyrstu sýn virðist barnalegur en leynir mjög á sér og venst vel. Hann kemur hugmyndum sínum vel til skila, og þótt hann geri það á einfaldan hátt er hann aldrei einfeldningslegur.

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins 22. nóvember 2008)
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *