Nýlega deildu spekingar í Morgunblaðinu um Sovétríkin og Stalín. Einn hafði að áliti annars hent gaman að fórnarlömbum Stalíns á óviðurkvæmilegan hátt. Sá hafði að áliti hins þriðja aftur farið rangt með tölur um fórnarlömb Stalíns. En allir hældu þeir þó hver öðrum fyrir vitsmuni og mannkosti og einnig fjórða spekingnum sem að þessu sinni tók ekki þátt í spjallinu, en hann er frægur sjónvarpsmaður og lætur stundum spakleg orð falla um Sovétríkin og um Stalín í þætti sínum og á vefsíðu sem hann heldur gangandi við mikinn fögnuð aðdáenda sinna.
Við lestur þeirra greina sem deilan gat af sér, (samtals fjórar) gagnrýni spekinganna og góðlátlegs hóls þeirra hvers í annars garð varð mér hugsað til óendanlegrar frjósemi harðstjórans mikla. Enn geta menn notað nafn hans og myrkraverk til að koma höggi hver á annan og til að klappa hver öðrum á bak þegar svo ber undir. Óvarlegt orðalag um Stalín er upplagt gagnrýnisatriði og réttmæli að sama skapi tilefni hóls. Þessvegna gat ég ekki að því gert að sjá skrifin öll sem enn eina lofgjörð um Stalín. Þó að það sé ljótt að segja það þá eru mestu aðdáendur harðstjórans mikla kannski spekingarnir Jakob Ásgeirsson, Hallgrímur Helgason, Guðmundur Ólafsson og Egill Helgason af þeirri einföldu ástæðu að þeir geta ekki hætt að hugsa um Stalín. Hallgrímur setur hann beint og óbeint í skáldsögur sínar og pistla, Guðmundur talar látlaust um hann í útvarpið, Jakob ætlar að fara að gefa út gamla bók eftir aldraðan amerískan fræðimann um hann og Egill kann utan að nöfn samstarfsmanna hans fyrr og síðar bæði þeirra sem hann lét drepa og hinna sem hann lét ekki drepa.
En þó að arfur stalínismans á Íslandi sé stórmerkilegt menningarlegt fyrirbæri sem verðskuldar sannarlega athygli og umfjöllun, þá er arfur stalínismans í heimalandi hans, Rússlandi ekki síður umhugsunarefni. Fyrir fáeinum vikum var ég fyrst í Berlín í nokkra daga og svo í Moskvu. Á fyrri staðnum eyddi ég hálfum degi í Gyðingasafni borgarinnar – glæsilegu safni bæði frá sjónarmiði byggingarlistar og fastasýningar safnins. Ekkert hefur verið til sparað til að endurvekja og halda á lofti minningu þeirra 250 þúsund þýsku Gyðinga sem drepnir voru á valdatíma Hitlers, en safnið er fyrst og fremst helgað minningu þýskra gyðinga. Það er merkilegt að sjá hvernig Gyðingar innan og utan Þýskalands halda Þjóðverjum við efnið og sjá til þess að grimmdarverk þeirra og atburðir fortíðarinnar sem tengjast Gyðingum gleymist ekki.
Á síðari staðnum, í Moskvu, átti ég erindi við samtök, Memorial, sem helga sig fórnarlömbum og sögu Gúlagsins í Sovétríkjunum. Þessi samtök njóta aðeins minniháttar stuðnings frá hinu opinbera. Þau reka starfsemi sína að hluta með sjálfboðastarfi, þau hafa yfir niðurníddri húseign að ráða þar sem þau geyma gögn sín og skjalasafn við frumstæðar aðstæður. Samt eru þau einu samtökin sem sinna þessum málum af einhverjum krafti. Rússnesk stjórnvöld telja enga ástæðu til að minnast eða gera mikið úr örlögum þeirra milljóna sem ýmist létu lífið eða liðu ólýsanlegar hörmungar í fangabúðum Sovétríkjanna á fjórða, fimmta og sjötta áratugnum og raunar virðist það mjög útbreidd skoðun meðal fólks að þeir sem vilja vinna úr eða fjalla um örlög og atburði þessa tíma geri það einungis í því skyni að koma höggi á rússnesk stjórnvöld og gera lítið úr afrekum rússnesku þjóðarinnar. Rússnesk yfirvöld eru hinsvegar alveg til í að tala um Stalín, og rétt eins og þeir sem ekki geta hætt að hugsa um harðstjórann mikla í öðrum löndum, eru þau afar upptekinn af verkum hans, Pútín Rússlandsforseti segir að víst hafi Stalín verið vondur, en þó hafi hann látið byggja upp mikinn iðnað og svo framvegis.
Samt hefur flest í þessari sögu minna með Stalín að gera eða samstarfsmenn hans, drepna og ódrepna, en með það ógróna sár í rússneskri þjóðarsál sem ofsóknir þessara tíma ollu. Það má segja að Rússar séu enn, að minnsta kosti hvað varðar opinbera stefnu stjórnvalda og skoðanir sem háværar eru á almannavettvangi, í sjálfsafneitun um veruleika fangabúðanna. Minningin er einfaldlega of sársaukafull og því er auðveldara að reyna að gleyma henni og láta sem hið liðna sé liðið.
En oft er hið liðna lifandi og óuppgerður veruleiki. Enn erum við að fylgjast með ofbeldi innan Rússlands og á landamærum þess sem rekja má beint og óbeint til stjórnmálamenningar stalínismans. Sú trú ríkir í Moskvu að einungis miðstýrt valdakerfi sem treystir á vopnaðar öryggissveitir og alltumfaðmandi hugmyndafræði geti haldið ríkinu saman. Þannig er stalínismi, ólíkt til dæmis nasisma, sprelllifandi fyrirbæri enn þann dag í dag, þó að mælskulistin sé örlítið önnur en hún var á fyrri árum og jafnvel þó að enginn játi lengur trú á Stalín.
Hvernig ætli að standi á þessu? Af einhverjum ástæðum hefur hernaðarhyggja samtímans í auknum mæli tekið upp sigurinn í heimstyrjöldinni til að réttlæta sig. Þannig héldu Rússar upp á 60 ára afmæli sigursins á Þjóðverjum með talsvert meiri pomp og pragt heldur en þegar 50 ára afmælis sama sigurs var minnst fyrir 10 árum. Þeir fengu heimsóknir góðra gesta sem í stað þess að hafa í hótunum við þá vegna ógnarverka í Tsjetsjeníu eða augljósra tilrauna síðustu mánaða til að eyðileggja það litla lýðræði sem þó var búið að koma á í Rússlandi, tuldruðu eitthvað um afsökunarbeiðni vegna þess sem gerðist eftir heimstyrjöldina síðari.
Það sem gerir alla umræðu um þessi mál – Gúlagið, Gyðinga, Tsjetsjenju nú eða Írak – svo erfiða er að það er eins og hún geti aldrei snúist um annað heldur en hverjir séu sökudólgar og hverjir ekki og hver sé nákvæmlega tala látinna. En samt er einhvernveginn eins og þetta séu alls ekki spurningarnar sem mestu máli skipta.
Í borginni Astana í Kasakhstan situr kennari á eftirlaunum í íbúð sinni í hrörlegu fjölbýlishúsi og reynir að fá aðgang að skjalasöfnum innanríkisráðuneytis landsins um fangabúðir Sovétríkjanna á þeim slóðum, örlög fanga og fleira. Það er ekki auðsótt mál og stuðning við framtakið hefur kennarinn ekki annan en peninga sem útlendingar senda honum og hjálp þeirra sem eru til í að aðstoða hann kauplaust. Víða í löndum Sovétríkjanna sálugu er nákvæmlega sama uppi á teningum: Þeir sem vilja varðveita og vinna úr fortíð fangabúðanna eru atvinnulausir og peningalausir og álitnir sérvitringar af flestum. Margt af þessu fólki hefur ekki hugmynd um hvað Stalín lét drepa marga. Engu síður heldur það uppi merki þeirra sem telja að fortíðinni þurfi að vinna úr og reyna að skilja hana.
En þetta er erfitt og flókið og ekki gott að nálgast það – síst af öllu í fjölmiðlum. Spurningin um hvað Stalín lét drepa marga er hinsvegar einföld og auðskilin. Kannski þetta sé þrátt fyrir allt rétt hjá spekingunum fjórum. Við ættum bara að halda áfram að tala um hvað Stalín lét drepa marga og gera það óhlæjandi. Á meðan gleymum við að minnsta kosti ekki Stalín.

Birt á Kistunni í maí 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *