Á einum mánuði hafa félagslegar og efnahagslegar forsendur samfélagsins hrunið. Þó að ástæður hrunsins séu að hluta alþjóðleg fjármálakreppa, er óumdeilt að margvísleg mistök stjórnvalda skýri líka hvernig komið er. Það furðulega er hinsvegar að stjórnvöld, þingmenn jafnt sem ráðherrar, virðast halda að þeim dugi að setja upp hinn nýja áhyggju- og þjáningarsvip til að geta haldið áfram í sínum stöðum. Getur það gengið?

Algeng rök gegn hröðum stjórnarskiptum og kosningum eru þau að hættulegt sé að skipta um leiðtoga á óvissutímum eins og þeim sem nú eru og betra að láta núverandi leiðtoga vinna úr því versta. En þetta eru sérkennileg rök því í lýðræðissamfélagi birtist stöðugleiki einmitt í því að hægt sé að skipta um fólk með hraði þegar á reynir. 

Önnur mótbára byggir á því að jafnvel þótt stjórnarskipti séu ekki hættuleg, þá breyti þau sem slík engu um ástand mála. En þetta er hálfgerð rökleysa. Stjórnarskipti breyta aldrei neinu um ástandið, en þeim fylgja breytt tök á ástandinu. Það er tilgangur þeirra. Búi leiðtogar við vantraust og tortryggni geta þeir ekki unnið úr neinu og eiga að víkja.

Loks halda sumir því fram að við eigum ekki að krefjast stjórnarskipta nú vegna þess að á erfiðleikatímum þurfi allir að standa saman. Þessi rök eru líka, þegar betur er að gáð, veigalítil. Samstaða krefst tiltrúr. Það er tilgangslaust að tala um samstöðu fólks með stjórnmálamönnum sem njóta hennar ekki. Það skapar aðeins kaldhæðna afstöðu gagnvart stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í rúmlega 17 ár. Hann hefur fylgt landinu frá því að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir, inn í EES, einkavæðingu atvinnufyrirtækja og bankanna, siglt háan byr í góðærinu og nú brotlent hörmulega með bönkunum. Er hægt að hugsa sér betri ástæðu til að leysa hann frá völdum, hratt og örugglega?

Árið 1989 var gerð svokölluð flauelsbylting í Tékkóslóvakíu og kommúnistaflokknum komið frá völdum. Flauelsbyltingin var friðsamleg vegna þess að leiðtogarnir fóru frá þegar þeir sáu að um annað var ekki að ræða. Stjórnarskiptin voru því eins prúðmannleg og hugsast gat miðað við aðstæður og það jafnvel þó að allt embættis- og stjórnkerfið væri undirlagt einstaklingum sem í raun áttu hagsmuni sína og lífsafkomu undir því að kommúnistaflokkurinn væri áfram við völd.

Í fjölflokkakerfinu hér, þar sem enginn einn flokkur hefur hreinan meirihluta, ætti borgaralegrar byltingar af þessu tagi ekki að vera þörf, flokkarnir ættu að geta sameinast um það sem svo augljóslega þarf að gera. En því miður sjást engin merki þess að neinn flokkur, hvorki Samfylkingin né stjórnarandstöðuflokkarnir ætli sér þetta. Þess í stað láta menn sér vel líka að Sjálfstæðisflokkurinn ráði ferðinni hér eftir sem hingað til. Jafnvel formaður flokksins er svo öruggur með sig að hann segist engar áhyggjur hafa af hraðminnkandi fylgi í skoðanakönnunum. 

Einhvernveginn er erfitt að ímynda sér að almenningur láti sér lynda óbreytt pólitískt ástand lengi enn. En ef stjórnmálamennirnir neita að skilja það er hætt við að nýtt pólitískt afl verði að koma til sögunnar, kannski eitthvað í líkingu við Borgaravettvang í Tékkóslóvakíu. Þau samtök breyttust á tveimur vikum úr óformlegum vettvangi umbótafólks í ráðandi stjórnmálaafl í landinu. 20. nóvember töldu stjórnvöld ekki einu sinni tímabært að ræða við forystumenn Borgaravettvangs, 9. desember viku þeir úr embættum sínum fyrir sama fólki. Svona hratt geta hlutirnir gengið fyrir sig þegar leiðtogar hafa beðið siðferðilegt skipbrot.

Kannski þurfum við flauelsbyltingu, úr því að hinir kjörnu fulltrúar virðast ófærir um að gera nauðsynlega uppstokkun. Byltinguna hér mætti kalla flísbyltingu til aðgreiningar frá hinni og vegna þess að kannski er kominn tími til að jakkafötin víki fyrir flíspeysunum.

5 replies
 1. FHS
  FHS says:

  Flísbylting…
  Hefurðu séð verðið á flíspeysum?
  Nærri lagi að þetta væri einhver bómullarbylting…eða jafnvel ullarbylting, það væri nærri lagi. Lopinn getur verið íslenskur allavega

  Svara
 2. Valgeir
  Valgeir says:

  Ég vil þakka fyrir greinargóðar hugleiðingar og aðhyllist einnig að með auknu aðgerðarleysi og að virðist hagsmunagæslu sé hægt að sjá margt þróast í þá átt sem gerðist í Tékkóslóvakíu.
  Flís er ódýrt jú og er framleitt úr endurnýtanlegum efnum eins og gosflöskum, en eitt hefur þó íslenska ullin framyfir hún heldur 70% af einangrun sinni þótt hún gegnblotni.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *