(Um bókina Saga af forseta eftir Guðjón Firðriksson, Mál og menning, 2008)

Bókin Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson er ein samfelld lofræða á 566 blaðsíðum um forseta Íslands Hr. Ólaf Ragnar Grímsson. Sjálfsagt á forsetinn lof skilið fyrir margt, en þó eru ýmsar erfiðar hugsanir farnar að leita á lesandann áður en hann les lokamálsgrein eftirmála hennar á bls. 566 þar sem höfundur lýsir forsetanum og kynnum sínum af honum svo: „Ég hef þekkt Ólaf síðan 1966 og mér hefur hann birst sem heiðarlegur og metnaðarfullur maður, ekki bara fyrir eigin hönd heldur fyrst og fremst fyrir íslenska þjóð. Ást hans til Íslands hefur verið rauði þráðurinn í öllu hans starfi og hann hefur aldrei skarað eld að eigin köku. Mest er þó vert um hugrekki hans gagnvart veraldlegu valdi. Þar hefur hann staðið uppréttur.“ Ást Guðjóns Friðrikssonar til forseta síns er á sama hátt rauði þráðurinn í bók hans. Og kannski er það bara fallegt, takist lesandanum að átta sig á þessu og sætta sig við það sem eitt megineinkenni bókarinnar.

Saga af forseta er engin ævisaga Ólafs Ragnars Grímssonar og það sem fléttað er inn í frásögnina af því sem á daga hans dreif áður en hann varð forseti Íslands hefur fyrst og fremst þann tilgang að varpa ljósi á það sem gerst hefur í forsetatíð hans. Guðjón er skipulegur höfundur og frásögn hans er byggð upp á einfaldan hátt þar sem hann rekur og túlkar atburði jöfnum höndum. Þannig dregur hann upp ákveðna mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni sem forseta og hvað sem manni finnst um þá mynd, þá er hún fullkomlega skýr: Hún er veraldleg helgimynd af manni sem höfundur telur að sameini óvenjulega hæfileika annarsvegar harðfylgi, ósérhlífni og heiðarleika hinsvegar. Og túlkun hans á atburðum er í samræmi við þessa helgimynd.

Bókin er að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt gagnrýnin frásögn af umdeildum stjórnmálamanni og jafnvel enn umdeildari forseta. Hún byrjar á lítilli sögu sem gefur tóninn fyrir það sem á eftir kemur: Íslenskir kaupsýslumenn eru að reyna að koma sér upp viðskiptasamböndum í Víetnam, en þeir átta sig á því að erfiði þeirra er til lítils. Þá skortir tengsl við valdamikla einstaklinga og embætti. Inn kemur Ólafur Ragnar og viti menn: Umsvifalaust eru þeir látnir hnýta á sig bindin og leiddir í viðhafnarstofu með forseta landsins þar sem Ólafur heldur uppi elskulegum samræðum og sjarmerar alla viðstadda. Í lok fundarins fallast forseti Víetnams og hinn verðandi forseti Íslands í faðma. Ekki þarf að spyrja að því að í viðskiptum eru Íslendingunum allri vegir færir í landinu eftir að þessi sambönd hafa verið opnuð.

Og þannig heldur sagan áfram. Ólafur Ragnar Grímsson hefur á undanförnum 25 árum byggt upp mikið tengslanet sem veitir honum aðgang að stjórnmálaleiðtogum um allan heim. Mest virðast tengsl hans vera á Indlandi en hann á einnig vini í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu og Asíu. Hann lagði grunninn að tengslaneti sínu með þátttöku í starfi samtakanna Parliamentarians for Global Action sem á níunda og tíunda áratugnum beittu sér í afvopnunarmálum og fengu í því skyni nokkra þjóðarleiðtoga til að leita alþjóðlegrar samstöðu um bann við kjarnorkutilraunum. Þetta tengslanet er grunnurinn að því félagslega auðmagni sem gerir Ólaf að lykilmanni í alþjóðlegu viðskiptalífi. Eftir að hann varð forseti hefur hann enn aukið við það, ekki síst með hjónabandi sínu og Dorritar Moussaieff. Sambönd hennar hafa þanið út tengslanet hans í nýjar áttir. Til viðbótar við stjórnmálaleiðtoga og athafnamenn getur Ólafur nú státað af persónulegum kunningskap við auðmenn af ýmsu tagi, kóngafólk, leikara, kvikmyndastjörnur og annað frægt fólk. Allt hefur þetta gert Ólafi mögulegt að styðja ríkulega við íslensku útrásina og hefur tryggt honum stuðning og aðdáun íslenskra athafna- og kaupsýslumanna. Þó er því ekki að neita, að manni verður nóg um þegar líður á bókina og starf forsetans virðist vera algjörlega helgað slíkum samskiptum í nafni íslensks viðskiptalífs, baráttu gegn loftslagsbreytingum og annarra málefna. En Guðjóni er mjög í mun að sýna fram á að með því að blanda sér í viðskiptalífið sýni Ólafur að hann er nútímalegur leiðtogi og laus við gamlar grillur um hvernig þjóðhöfðingi eigi að haga sér. Hann lýsir gagnrýni Ögmundar Jónassonar (og fleiri) á umsvif forsetans sem birtingarmynd hins „gamla og úrelta íslenska viðhorf[s] að verslun sé einhverskonar óæðri atvinnugrein sem tengist braski“ (458). 

Það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að sjá forsetaembættið í þessu ljósi, en gagnrýnisleysið verður þó næstum átakanlegt þegar ferðalög til Austur-Evrópu og Kína eru til umræðu og tilraunir Íslendinga til að koma þar ár sinni fyrir borð. Þar nær barnsleg trú bókarhöfunda á heimildamenn sína og viðmælendur miklum hæðum. Svar Björgólfsfeðga við veldi mafíunnar og spillingu í Rússlandi var til dæmis fólgið í því að „fara að settum reglum og borga skatta skilvíslega og vera þannig með allt sitt á hreinu gagnvart yfirvöldum“ (408). Allsstaðar þar sem Íslendingarnir fara er þeim lýst sem fljótum að hugsa, snarráðum og stálheiðarlegum áhugamönnum um heilbrigð og eðlileg viðskipti frekar en stórtækum kaupsýslumönnum sem kalla ekki allt ömmu sína. Nú er ekki svo að skilja að Guðjón nefni enga gagnrýni á forsetann eða það starfssvið sem hann hefur kosið sér. Gagnrýnin er hinsvegar nær undantekningalaust léttvæg fundin og þegar um er að ræða beina gagnrýni á forsetann sjálfan tekst Guðjóni yfirleitt að stilla henni þannig upp að á endanum er hún hrós. Þannig bendir Guðjón aftur og aftur á að ef til vill hafi forsetinn ekki „sést fyrir“ í þessu máli eða hinu, jafnvel „farið offari“ eða „gengið of langt“. En alltaf er það brennandi áhugi á málefninu, dugnaður og velvilji sem leiðir hann áfram og verður til þess að hann gengur of langt.

En þegar líður á bókina getur maður ekki varist þeirri hugsun að forsetinn hafi einfaldlega verið til í allt og látið sogast inn í þann heim auglýsingamennsku og áróðurs sem einkennir markaðssetningu, ekki síst stórtæka alþjóðlega markaðssetningu og þar á engin gagnrýnin hugsun eða efasemdir heima. Ólafur lýsir því til dæmis eins og ekkert sé sjálfsagðara í viðtali sem tekið er upp í bókinni að hann hafi flutt ræðu til að kynna CCP í Shanghai og með henni hafi verið sýndar myndir af heimsókn hans til Jintao Hu forseta Kína. „Þeir kunna þetta þessir strákar“ segir Ólafur „ Skilaboðin til Kínverjanna voru alveg skýr. Þetta íslenska fyrirtæki kemur ekki aðeins með blessun forseta Íslands heldur einnig forseta Kína“ (458). Það sem er athyglisvert hér er að Ólafi finnst greinilega ekkert við það að athuga að beita einföldu markaðssetningarblöffi þar sem látið er líta svo út að forseti Kína hafi sérstaka velþóknun á ákveðnu fyrirtæki með því að sýna myndir af þeim saman á meðan hann er að halda kynningarræðu um það.

Nokkuð ítarlega er farið yfir samskipti forsetans við Davíð Oddsson og fleiri ráðamenn í stjórnartíð hans og deilum þeirra líst. Það er allt fremur niðurdrepandi lesning, þótt að sjálfsögðu haldi Guðjón sem fyrr með sínum manni: Hann er veraldarvanur heimsborgari sem allir vilja ræða við, heimsækja og hlusta á, en Davíð Oddsson öfundsjúkur og geðillur sveitalubbi sem ýmist skilur ekki hvað forsetinn er að gera eða óttast að það kunni að skyggja á sig. Lýsingin er farsakennd, enda voru samskipti Ólafs Ragnars við Davíð líklega að mestu leyti samfelldur farsi.

Saga af forseta er að mestu skrifuð á árunum 2006 og 2007 að því er höfundur segir sjálfur. Hún ber þess líka merki. Síðustu atburðir sem inn í hana rata er 75% yfirtaka ríkissjóðs á Glitni sem varð aldrei að veruleika. Bankahrunið mikla rúmri viku síðar er ekki með, enda kannski eins gott. Það er að mörgu leyti fróðlegt að lesa þessa bók, en ástæðan fyrir því er ekki dýpt hennar eða skörp greining. Ástæðan er sú að nú þegar, fáeinum vikum eftir að íslensku útrásinni lauk (að minnsta kosti hvað bankana varðaði), er bókin orðin minnisvarði um veröld sem var. Hún er skrifuð í anda útrásarinnar og endurspeglar viðhorfin sem giltu þegar við trúðum því ennþá að Íslendingar væru stórkostlegir og myndu leggja heiminn að fótum sér vegna einstakra hæfileika sinna og greindar. Nú vitum við betur, en þessi bók mun minna okkur á hvernig heimurinn var.

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins 20. desember 2008)
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *