(Um Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar, Guðni Th. Jóhannesson, Forlagið, 2009)

Frásögn af dramatískum atburðum er ekki endilega dramatísk – og á kannski ekki vera það. Þegar atburðir eru vel þekktir og frásögnin hefur þann tilgang að rekja þá er vart við því að búast að spenningur haldi lesandanum við efnið. Hrunið, eftir Guðna Th. Jóhannesson er því enginn „þriller“ og enginn reifari. Hún er fyrst og fremst skýr og skilmerkileg frásögn af þeim hörmulegu atburðum sem riðu yfir íslenskt samfélag í fyrra og viðbrögð við þeim á vettvangi stjórnmála og opinberrar umræðu mánuðina á eftir. Bókin staðfestir sumt og bætir við annað. Guðni er sérlega flinkur við að draga saman upplýsingar og fylla upp í eyður og göt sem iðulega eru skilin eftir í frásögnum fjölmiðla af atburðunum. Hún er því tvímælalaust það sem kalla mætti „gagnlegt yfirlit“. Hrunið svarar þó engum lykilspurningum. Hún stillir atburðarásinni upp og skerpir á henni og hjálpar þannig lesandanum að hugsa um orsakasamhengi atburðanna. Gallinn er sá að hún skilur furðulítið eftir sig. Guðni nálgast efnið vissulega af öryggi og jafnvægi og forðast upphrópanir og sleggjudóma. En varfærni hans verður yfirleitt til þess að hann vísar umræðunni frá sér og lætur yfirborðskennda frásögn duga. Ef til vill vakna of miklar vonir um innihald bókarinnar vegna þeirrar staðreyndar að höfundurinn er sagnfræðingur og stundum er ýjað að því að bókin sé sagnfræðilegt rit. Það er hún ekki og auðvitað er ósanngjarnt að ætlast til þess að þar sem höfundurinn er sagnfræðingur hljóti bók hans um atburði síðasta árs að vera sagnfræði af einhverju tagi. Hrunið er blaðamennskurit, tekið saman í flýti og gefið út með hraði í þeim tilgangi að vera fyrstur með yfirlitið. Vinnubrögð sagnfræðingsins leyna sér hinsvegar ekki, Guðni er miklu vandvirkari og nákvæmari í meðferð heimilda en algengast er í ritum af þessu tagi, og frásögnin er fagmannlega uppbyggð.

15. september 2008 er upphafsdagsetning bókarinnar, en þá féll bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers, og henni lýkur við fall ríkisstjórnar Íslands 26. janúar 2009. Þótt saga íslenska hrunsins hefjist ekki við fall Lehman og henni ljúki ekki við fall stjórnarinnar, þá er þessi rammi í rauninni hin sjálfsagða viðmiðun atburðanna. Guðni leggur sig fram um að lýsa því sem gerðist þessa 133 daga og athygli hans er öll á stjórnvöldum. Inn í frásögnina er stungið stuttum köflum sem hafa þann tilgang fyrst og fremst að skýra ákveðin atriði úr forsögu málsins – og velta vöngum yfir því hvaða gallar, lestir eða mistök geti helst skýrt ófarirnar. Guðni beitir athyglisverðri leið í frásögn sinni. Hann vísar aldrei í nafngreinda heimildamenn og einu rekjanlegu heimildir hans eru opinber gögn, umfjöllun fjölmiðla og birt skrif einstaklinga. Í annað er vísað sem „frásögn heimildamanns“ eða „upplýsingar í vörslu höfundar“ en tilvísanir af þessum toga segja lesandanum auðvitað ekkert um gildi heimildanna. Þetta gerir að verkum að lesandinn hefur ekki hugmynd um við hverja Guðni talaði og verður því að leggja traust sitt á heiðarleika hans og fagmennsku. Þessi aðferð eykur enn á blaðamennskueðli bókarinnar.

Í frásögn sinni forðast Guðni að draga ályktanir eftir því sem kostur er – auðvitað er óhjákvæmilegt að draga einhverjar ályktanir af framvindunni hverju sinni. Þrátt fyrir þetta koma glögglega fram í bókinni ákveðnar meginlínur sem honum þykja ef til vill næsta sjálfsagðar. Í fyrsta lagi telur hann að ríkisstjórnin hafi í raun verið dauðadæmd um leið og hrunið varð – búsáhaldabyltingin hafi sem slík ekki orsakað stjórnarslitin (355). Í öðru lagi telur hann að þegar fram líða stundir muni „dómur sögunnar“ verða sanngjarnari í garð þeirra sem helst er kennt um ófarirnar nú – en með orðinu sanngjarnari á hann líklega við að dómur sögunnar verði mildari í en tilfinningar fólks eru nú (362). Að öðru leyti gerist Guðni enginn dómari yfir þjóðinni eða einstökum hópum. Hann endar bókina á nokkurskonar lista yfir 8 þætti sem hafa þurfi í huga við leita að orsökum, en þessir þættir eru góðkunningjar úr umræðum vetrarins: Annarsvegar aðstæðurnar (heimskreppan) hinsvegar mistök (vangá, einangrun, ofvöxtur) og lestir (taumleysi, dramb, lygi, bruðl). Þannig kemur hann sér meðvitað hjá því að segja nokkuð sem hönd er á festandi um það sem gerðist, forðast alla greiningu á atburðunum. Frásögnin er svo hlutlaus að mér er til efs að nokkur hefði einu sinni talið Guðna hafa gert sig vanhæfan með henni til að sitja í rannsóknarnefnd um bankahrunið, hefði sú spurning komið upp.

En þrátt fyrir hið almenna varkára yfirbragð bókarinnar felur hún að sjálfsögðu í sér tilraun til að móta umfjöllun um atburðina farveg og stefnu. Guðni velur sumt í frásögn sína en hafnar öðru. Hann eyðir til dæmis engu plássi í að draga fram hvernig hinar nýju stjórnmálahreyfingar vetrarins urðu til, eða hversvegna. Hann fer ekki í saumana á þeim átökum sem urðu innan stjórnmálaflokkanna, nema Sjálfstæðisflokksins að litlu leyti, sem enduðu með formannsskiptum í þeim öllum nema Vinstri grænum. Umskiptin í Framsóknarflokknum koma varla við sögu og val flokksins á kornungum óreyndum manni í formannsstól er ekki nefnt sérstaklega. Guðni gerir enga tilraun til að skýra eða segja frá tilurð Borgarahreyfingarinnar sem þó varð eiginlegt stjórnmálaafl í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Borgarahreyfingin er nefnd tvisvar í framhjáhlaupi. Nú geta fleiri rakið atburðina en Guðni og gert það á annan hátt en hann, en það er galli við bókina að engar skýringar eru gefnar á því hversvegna hann segir söguna eins og hann gerir, en ekki á annan hátt. En þó að Guðni útlisti þetta ekki sérstaklega er nærtækast að draga þá ályktun að áhugamál hans sé einkum og sér í lagi að rekja ákvarðanatöku innan ríkisstjórnarinnar og því mæti annað einfaldlega afgangi. En þennan fókus hefði að sjálfsögðu þurft að gera uppskátt um og skýra. Þannig er frásögn Guðna alls ekki frásögn af hruninu í heild sinni eða þjóðfélagslegum afleiðingum þess, heldur mun þrengri frásögn af átökum og ákvörðunum leiðtoganna eftir hrunið.

Frásögn Guðna er sem fyrr segir skýr og skilmerkileg. Og hún er löng, bókin er á fimmta hundrað síður með öllu. Samt eru tveir alvarlegir gallar á frásögninni sem óhjákvæmilegt er að benda á. Útskýringar eru oftast mjög yfirborðslegar og stundum vísað í menn eða skýrslur eins og lesandinn eigi að vita allt um þessa menn og skýrslur þeirra. Þetta er ekki síst bagalegt í skýringaköflunum sem stungið er milli kafla í umfjölluninni. Þannig er talað um „Geyser crisis“ skýrsluna eins og allir viti um hvað hún var og hvaða áhrif hún hafði (296), talað er um fyrirtæki og félög útrásarinnar eins og þau og starfsemi þeirra séu öllum kunn (sjá t.d. 225), talað er um „dökka mynd af ástandinu“ sem Edda Rós Karlsdóttir og Ólafur Ísleifsson hafi dregið upp fyrir Samfylkingarmönnum án þess að fram komi hver hún var osfrv. osfrv (227). Þetta er slæmt vegna þess að ef svo heppilega vill til að lesandinn þarf ekki að láta skýra þessa hluti neitt fyrir sér þá þarf hann heldur ekki að lesa bókina. En vilji hann skilja eitthvað sem hann skildi ekki fyrir þá dugar bókin honum skammt.

Hér er ef til vill komið að kjarna málsins. Það er dálítið erfitt að skilja hversvegna einmitt svona bók er að mati Guðna mikilvægust í augnablikinu. Það er greinilegt að áhugi fólks á að skilja það sem gerðist er mikill og þrátt fyrir alla umfjöllunina og umræðurnar síðustu mánuði. En Hrunið getur lítið aukið við skilning lesandans ef hann þarf að hafa þennan skilning fyrir til að geta með góðu móti áttað sig á orsakasamhenginu sem sagt er frá. Bókin er sennilega gagnlegust fyrir Íslendinga sem voru svo heppnir (eða óheppnir) eða vera fjarri heimaslóðum þegar ósköpin gengu yfir og þurfa því á þessari frásögn að halda.

Guðni segir frá því í formála að upphaflega hafi staðið til að hann skrifaði bókina ásamt kollega sínum við HR, Ólafi Ísleifssyni hagfræðingi. Það hefði vissulega lyft bókinni verulega ef hún hefði innihaldið hagfræðilega greiningu á atburðunum til viðbótar við frásögnina af pólitískum átökum og baráttu ríkisstjórnarinnar. Það stendur bókinni talsvert fyrir þrifum að þrátt fyrir glögga dómgreind vantar höfundinn hagfræðilegan grunn sem gerði honum kleift að skýra hagfræði- og fjármálahlið atburðanna af einhverri dýpt fyrir lesandanum. Þrátt fyrir skýringar á nokkrum meginhugtökum fjármálamarkaðarins í bókarlok þarf lesandinn í raun að hafa grunnþekkinguna til að geta fylgt frásögninni. Og stundum virðist Guðna bregðast bogalistin. Hann gerir til dæmis mikið úr því að stjórnvöld hafi séð ákveðna hliðstæðu í meðferð sinni á íslensku bönkunum sem Neyðarlögin gerðu mögulega og meðferð bandarískra stjórnvalda á Washington Mutual, viðskiptabanka sem veitt hafði ótrygg húsnæðislán (undirmálslán) þar vestra. Washington Mutual (WaMu) var skipt í tvennt, innlánshlutinn seldur J.P. Morgan en starfsemin sem eftir var látin fara á hausinn. Það þýddi að lánardrottnar bankans töpuðu kröfum sínum að mestu leyti en innistæðueigendur héldu öllu sínu. Íslensk stjórnvöld skildu á milli innlendrar og erlendrar starfsemi bankanna og í því sér Guðni hliðstæðuna. Í nokkuð ítarlegri umfjöllun hans um Neyðarlögin og deiluna við Breta í kjölfarið, (sem er líka gagnrýnasti hluti bókarinnar) leiðir Guðni getur að því að þessi leið hafi verið mistök og því megi líta svo á að það séu Neyðarlögin sjálf frekar en eitthvað sem sagt var dagana eftir að þau voru sett sem var ástæða viðbragða Breta. En greining hans er óljós. Stóri munurinn á WaMu og íslensku bönkunum eru erlendu innistæðurnar. Það var grunur Breta um að stjórnvöld hyggðust gera greinarmun á vernd innistæðna á Íslandi og í útibúum Landsbankans sem olli harkalegustu viðbrögðum í Bretlandi, frekar en áhyggjur breskra stjórnvalda af tapi annarra kröfuhafa. Gallinn við umfjöllun Guðna hér er sú að hann klárar hana ekki: Hann bendir á athyglisverðan þátt, en fylgir greiningu sinni ekki til enda og fyrir bragðið situr lesandinn eftir jafnnær og klórar sér í höfðinu. Hvaða leið er eðlileg? Hvaða leið er verjanleg? Hefði ekki WaMu leiðin einmitt verið fær, ef hún hefði verið hliðstæð WaMu? (sjá 197-201).

Í formála Hrunsins leggur Guðni áherslu á yfirsýnina en telur að greiningin verði að bíða. Það er óþarft að gera lítið úr mikilvægi yfirsýnarinnar, en ég held að það séu mistök að líta svo á að greining þurfi að bíða einhvers tiltekins tíma þegar „rykið er sest“ eða eitthvað slíkt. Fullkominn einhugur verður aldrei um túlkun sögulegra atburða og þótt hrunið og kreppan verði mönnum fjarlægari eftir 100 ár en í dag er ekki þar með sagt að menn muni skilja betur það sem gerðist. Það er líka viss misskilningur fólginn í því að halda að frásögnin sjálf feli ekki í sér ákvarðanir um hvernig eigi að túlka atburðina. Yfirlitsáhersla er því alls ekki sjálfsögð. Og það sem verra er, með  henni víkur Guðni sér markvisst undan mikilvægustu spurningum augnabliksins á þeim forsendum að ekki sé hægt að fá nógu góð svör við þeim nú. Hversvegna ekki? Munu svörin koma af sjálfu sér í fyllingu tímans? Þau koma tæplega nema skarpir greinendur leggi sig fram nú og síðar um að finna orsakirnar og skýra þær.

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins, bls. 12, 4. júlí 2009)

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *